Spólum til baka, hvernig var árið 2022?

Anna Signý
Kolibri bloggið
Published in
8 min readJan 2, 2023

--

2022 var fjölbreytt ár í sögu Kolibri, þá einna helst vegna þess að á árinu náðum við að jafna kynjahlutföll, þ.e. kvenna og karla sem starfa hjá félaginu. Við látum ekki staðar numið þar, því í byrjun nýs árs 2023 verða konur í meirihluta starfsfólks félagsins í fyrsta sinn í 15 ára sögu þess.

Það er gott að geta klappað sér á bakið og verið stolt af jöfnum kynjahlutföllunum, en við skemmtum okkur líka konung- og drottningarlega saman á árinu. Við fórum til Sitges á Spáni í ógleymanlega árshátíðarferð. Héldum sumarpartý með White on White þema sem og haustpartý með viðskiptavinum okkar þar sem við frumsýndum nýja bjórinn okkar sem kallast Ship it.

Myndir frá Sitges

Á árinu var farið í miklar endurbætur á skrifstofunni okkar. Við aðlöguðum okkur nýjum veruleika þar sem flest okkar mæta á skrifstofuna en vinna samt mikið með fjarfundi. Við bættum við litlum færanlegum fundarherbergjum frá Framery sem hafa slegið í gegn, svokallaðir poddar, og settum upp einfaldan og þægilegan fjarfundarbúnað þar sem þarf bara að smella á einn takka til að setja fjarfund í gang.

Við settum líka af stað nýja þjónustuleið sem kallast Kolibri Research eða Rannsóknir og ráðgjöf. Um er að ræða kraftmikla endurkomu á þjónustuleið sem Kolibri hefur verið þekkt fyrir en með breyttum áherslum. Áherslurnar eru annars vegar notendarannsóknir og notendaupplifun og hins vegar stafræn vörustýring, að velja og ramma inn réttu hugmyndirnar og að þróa þær hratt og vel. Bæði fagsvið eru ört vaxandi í stafræna geiranum hér á landi og Kolibri mun mæta vaxandi þörf með sérfræðiþjónustu og ráðgjöf, ásamt því að sinna þjálfunarþörf fyrirtækja með fjölbreyttum hætti.

En hvað verkefnin og lærdóm ársins er að ræða, þá tókum við þátt í allskonar spennandi og skemmtilegum verkefnum.

Myndir úr haustpartý Kolibri

Stóru verkefni ársins

Abler — Nýr vefur, hönnunarkerfi og einfaldað aðgengi að vörum og þjónustum

Á vormánuðum hóf Kolibri samstarf við Abler sem miðar að því að gera sjálfsafgreiðslu (e. onboarding) fyrir tilvonandi viðskiptavini Abler, þ.e. íþróttafélög og önnur félög með skipulagða starfssemi og iðkendur stafræna. Markmiðið var að gera það einfalt og þægilegt fyrir félög að geta byrjað að nota Abler fyrir sína starfssemi.

Samhliða þessu verkefni var farið í stafræna mörkun með skapandi leiðsögn þar sem ætlunin var að samræma upplifun notenda á öllum vörum og þjónustum Abler og gera notendavænni. Í kjölfarið var byrjað á nýjum vef fyrir Abler, alveg frá grunni í nýju vefumsjónakerfi með nýrri grafík og myndefni. Nýtt hönnunarkerfi var unnið með því að markmiði að samræma allt UX á vörum og þjónustum Abler. Vefurinn er langt á veg kominn og fer í loftið á næstu dögum.

Forsíða Abler

TM Tryggingar — Nýtt tjónakerfi og vefverðlaun

Kolibri hefur unnið náið að hugbúnaðarþróun og stafrænni stefnumótun með TM síðan 2014 og í dag starfa Kolibri og TM saman í tveimur hugbúnaðarteymum — Bót og Ronju — með áherslu á tvo þætti starfsemi TM, tryggingar og tjón.

Starfsfólk TM notar ýmiskonar hugbúnað til að sinna sínum störfum og verkefni hugbúnaðarteyma Kolibri og TM felast bæði í nýþróun sem og rekstri og viðhaldi hugbúnaðar og kerfa sem starfsfólkið notar. Meðal verkefna fyrir starfsfólk má nefna Bóthildi sem er nýtt kerfi sem tjónafulltrúar TM nota til að afgreiða tjónamál. Markmið hugbúnaðarþróunar þegar kemur að starfsfólki TM er að auðvelda starfsfólki vinnuna sína með sérsniðnum notendavænum lausnum.

Viðskiptavinir TM nýta sér einnig margvíslegar lausnir hugbúnaðarteymanna eins og TM vefinn, TM appið og TM vefsöluna þar sem viðskiptavinir geta keypt tryggingar á netinu en TM var fyrsta tryggingafyrirtækið á íslandi sem bauð upp á þessa þjónustu og sú vara er sífellt að stækka og verða betri. Allar þessar stafrænu þjónustur voru svo í sífelldri þróun allt árið með allskonar flottum viðbótum fyrir notendur auk þess sem vinna hófst við gerð nýrra mína síðna sem mun líta dagsins ljós á næsta ári.

Á árinu fögnuðum við því að hljóta Íslensku vefverðlaunin fyrir tm.is í flokki fyrirtækjavefja (stór fyrirtæki).

Regn — Hringrásarapp

Kolibri fjárfesti í sprotafyrirtækinu Regn á árinu og hefur unnið náið með þeim við að búa til lausn sem er miðlægur vettvangur til að kaupa, selja og jafnvel gefa notaðan fatnað. Lausnin er app sem mun einfalda fólki viðskipti með notaðan fatnað og gera þau viðskipti að jákvæðri og skemmtilegri upplifun. Markmiðið með appinu er að draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum fjöldaframleiðslu og búa til rafrænt umhverfi sem hvetur einstaklinga til að eiga umhverfisvænari viðskipti með fatnað.

Nú í desember sl. fékk Regn samfélagsstyrk Landsbankans upp á eina milljón króna.

Regn fékk nýlega samfélagstyrk Landsbankans. Á myndinni má sjá Margréti forritara hjá Kolibri, Kristján Eld og Ástu frá Regn og Steinar hönnunarstjóra Kolibri

Dómsmálaráðuneytið — Stafræn réttarvörslugátt

Dómsmálaráðuneytið og Kolibri hafa átt í þéttu samstarfi síðan 2020 í verkefninu Réttarvörslugátt, en það gengur út á að auka sjálfvirkni og vægi stafrænna gagna í íslenskra réttarkerfinu og vann m.a. íslensku vefverðlaunin 2020 sem vefkerfi ársins. Teymi frá Kolibri hefur þróað vefgátt sem er í dag notuð um allt land í yfir 95% allra rannsóknarmála (gæsluvarðhald, farbann og rannsóknarheimildir) og hefur einfaldað til muna alla umsýslu og samskipti í þessum málum á milli lögreglu, héraðssaksóknara og dómstóla.

Áherslan á árinu 2022 var á að hanna og þróa stafræna málsmeðferð fyrir ákærur (sakamál), með það fyrir augum að leysa af hólmi óþarfa útprentanir, skönnun og ferðir með pappír. Sú lausn fór í loftið á haustmánuðum og er í beta-prófunum á Suðurlandi og Norðurlandi eystra.

Sambandið — Umsókn um fjárhagsaðstoð

Í byrjun árs 2022 var umsókn um fjárhagsaðstoð hjá Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga sett í loftið og í kjölfarið færð yfir í umsóknarkerfi Ísland.is. Til að einfalda úrlausn umsókna var umsýslukerfið tengt við fjárhagskerfið (NAV). Loks var gerð greining á ferlum sveitarfélaganna og vegvísir til næstu tveggja ára.

Rannsóknar og ráðgjafarverkefni

Háskóli Íslands — Notendamiðuð stafræn þjónusta

Í mars hóf Kolibri verkefni með HÍ sem er nátengt stefnu skólans, HÍ26. Í stefnunni eru sett metnaðarfull markmið um notendamiðaða þjónustu og stafræna umbyltingu í allri stoðþjónustu. Við hófum verkefnið með viðamiklum notendarannsóknum á þörfum og væntingum nemenda og starfsfólks og kortlögðum svo þjónustuna út frá sjónarhorni þeirra sem sækja sér þjónustu. Að lokum var hönnuð vef- og viðmótsfrumgerð að notendamiðuðum þjónustuvef sem fékk nafnið Þjónustumiðja. Í þessum töluðu orðum er tæknifólk innan skólans að smíða Þjónustumiðjuna. Þjónustuborð HÍ mun leiða efnisvinnu, en efnisstefna vefsins var þróuð í samvinnu við Kolibri. Stefnt er að því að vefurinn fari í loftið snemma á árinu 2023.

Þjónustumiðja HÍ

Íslandsbanki — Stafræn vörustýring

Íslandsbanki og Kolibri hafa starfað saman allan seinni hluta ársins að því að styrkja í sessi vörustýringu og auka nýsköpun í stafrænum verkefnum Íslandsbanka. Um er að ræða þjálfun með fjölbreyttri nálgun — m.a. skipulögðum námskeiðum, þjálfun stafrænna vörustjóra í starfi og uppbyggingu þekkingar og færni með því að styðja við mikilvæg stafræn verkefni hjá bankanum.

Pósturinn — Greining, notendarannsóknir og hönnun

Í október byrjuðum við að vinna með Póstinum til að greina tækifæri til umbóta á vefnum þeirra. Markmiðið var að besta núverandi vef og uppfæra hann eftir nýrri mörkun frá Tvist. Lögð var áhersla á að skapa traust með nýrri vefhönnun og einfölduðu veftré. Mikil greining átti sér stað, notendarannsóknir, aðgengisgreining og greining á hraða (e. performance) allt með það að markmiði að skilgreina litla sigra sem væri hægt að tækla fljótt.

Allar aðgerðir sem notendur þurfa á að halda verða gerðar meira áberandi og aðgengilegri á vefnum og vefurinn verður skipulagður út frá væntingum notenda, einstaklinga sem og fyrirtækja. Hönnun á vefnum er langt á veg kominn og í byrjun nýs árs geta gestir posturinn.is séð breytingar til hins betra.

Ný forsíða Póstsins

Vef- og hönnunarverkefni

Listasafn Íslands — Nýr vefur

Nýr vefur Listasafn Íslands dregur athygli notenda af þeirri mikilsfengu list sem er hægt að upplifa með því að heimsækja söfnin. Markmiðið var að gefa gestum vefsins tilfinningu fyrir söfnunum og kynna þau fyrir öllu því fræðsluefni og lærdómi sem listin hefur að geyma. Notendum var gert kleift að leita í allri safneign Listasafnsins sem telur yfir 14.000 verk. Vefurinn var hannaður og smíðaður af Kolibri og gefinn út í mars 2022.

Forsíða Listasafnsins

Vistbók — Umhverfisvænar byggingarvörur

Í byrjun árs hönnuðum við og gerðum stafræna mörkun fyrir Vistbók sem er fyrsti íslenski gagnabankinn fyrir umhverfisvænar byggingarvörur. Vefurinn auðveldar fólki leitina að umhverfisvænum byggingarvörum, gefur því færi á að sjá nánari upplýsingar um vörurnar, hvar þær fást og hvaða vottanir þær hafa.

Lífeyrissjóðurinn Brú — Árs- og sjálfbærniskýrsla

Í vor var gefinn út nýr árs- og sjálfbærni vefur fyrir Brú. Vefurinn er léttur og stílhreinn en allt myndefni er handteiknað af Snorra Eldjárn. Þar sem þetta er ársskýrsluvefur þá er mikið af gögnum og tölum sem þarf að setja fram á skiljanlegan hátt. Mikil vinna fór í tengingar og framsetningu á gögnunum til að einfalda utanumhald gagnanna.

Árs- og sjálfbærniskýrsla Brú lífeyrissjóðs

Verna — Ný virkni í appi

Í haust fékk tryggingafélagið Verna Kolibri til sjá um hönnun á nýrri virkni í Verna appinu. Við sáum um hönnun á uppfærslu á tilvísana/afsláttar virkni appsins (e. referrals) ásamt fleiri spennandi nýjunum sem eru væntanlegar á næstunni!

Ný virkni í Verna appinu

Á árinu hefur Kolibri líka komið að stafrænum verkefnum og hönnun fyrir m.a. Taktikal, Gefn og Hoobla og munu mörg þeirra verkefna halda áfram fram á næsta ár.

Við kveðjum 2022 og hlökkum til 2023 þar sem bæði ný sem og áframhaldandi verkefni munu gleðja og ögra okkur. Margt spennandi er í vændum á nýju ári, nýir vefir, öpp og áframhaldandi stafræn þróun og framúrskarandi notendaupplifun.

--

--