Skipta titlar máli?

Anna Signý
Kolibri bloggið
Published in
3 min readApr 17, 2024

--

Á sex ára starfsafmæli mínu hjá Kolibri og þegar ár er liðið frá því að ég tók við stöðu framkvæmdastjóra félagsins fannst mér vel til fundið að fara yfir farinn veg og skrifa um þær breytingar sem ég hef upplifað verandi kvenkyns framkvæmdastjóri tæknifyrirtækis sem selur þjónustu til annarra fyrirtækja. Ég hef nefnilega upplifað miklar breytingar á framkomu og viðhorfi fólks gagnvart mér á þessu ári sem framkvæmdastjóri, bæði faglega sem og persónulega.

Hvað hefur breyst og hvernig?

Fyrsta sem mig langar að nefna er að ég upplifi að það sé frekar hlustað á mig. Ég upplifi sjaldnar að það sé dregið í efa það sem ég segi, í rauninni finnst mér fólk hlusta af meiri athygli en áður. Ég er jafnvel spurð hvað framkvæmdastjóranum finnst, því það virðist skipta meira máli hvað mér finnst núna. Fólk talar við mig á mýkri hátt en áður og kemur sjaldnar með rök á móti því sem ég segi.

Ég hef upplifað breytt andrúmsloft í fundarherbergi þegar ég kynni mig sem framkvæmdastjóra Kolibri. Nú er litið svo á að tíminn minn skipti meira máli en áður og fólk er jafnvel upp með sér að ég taki mér tíma til að tala við það, því ég hljóti að vera svo svakalega upptekin. Ég hef líka heyrt fólk segja hvað það sé þakklátt fyrir að ég sem framkvæmdastjóri sé að taka þátt í verkefninu. Því það gefi verkefninu meira vægi og auki líkur á árangri.

Stjóri í stjóra tal er líka eitthvað sem ég hef upplifað nokkrum sinnum. Að ég verði að tala vit í þennan og hinn stjórann því ég sé stjóri sjálf og það sé frekar hlustað á mig. Það hefur gerst oftar en einu sinni að þegar ég segi eitthvað, sem er kannski það nákvæmlega sama og annað fólk hefur verið að tala um áður, að þá er hlustað. Ég tengi þetta ekki við minn eigin sannfæringarkraft heldur frekar titilinn sem ég ber, því ég finn mikinn mun á þessu frá því áður. Skoðunum mínum er frekar treyst núna en áður.

Hvaða áhrif hefur kyn mitt?

Að ég sé kona hefur komið oftar en einu sinni til tals. Ég hef m.a. heyrt að ég sem kvenkyns leiðtogi í fyrirtæki hljóti að vera extra hörð í horn að taka. Annars væri ég ekki í þessari stöðu. Að ég hafi klórað mig í gegnum karlana til að ná þessari stöðu, mögulega á frekjunni. Ég hef líka heyrt að ég sé kynjakvóta ráðning, að ég sé bara í þessari stöðu af því að það var komið að konu að vera í forsvari fyrir Kolibri.

Mér þykir það miður að þetta séu ennþá líklegar skýringar fyrir sumu fólki, frekar en að ég eða aðrar konur í leiðtogastöðum höfum einfaldlega fengið stöðuna út á færni okkar sem leiðtogar. Þetta viðhorf hefur verið tekið enn lengra og tengt við hjónabandið mitt og heimilið. Það hefur verið gert á þann hátt að ég hef verið spurð hvort ég sitji í húsbóndastólnum heima líkt og ég geri í fyrirtækinu þar sem ég starfa. Einnig hef ég verið spurð hvort manninum mínum þyki það ekki erfitt að ég þéni meira en hann. Loks hefur maðurinn minn sjálfur verið spurður hvernig það sé að eiga konu sem klæðist buxunum á heimilinu.

Sumar af þessum athugasemdum hafa verið í gríni og aðrar ekki. Flest fólk meinar líklegast ekkert með þessum athugasemdum þannig séð, en áhugaverð þykir mér þessi tenging á milli heimilis og vinnu sem ég leyfi mér að álykta að sé frekar gerð við konur en karla í leiðtogastöðum í fyrirtækjum.

Á þessu eina ári sem framkvæmdastjóri hefur margt komið mér á óvart. Sumt hefur verið ánægjulegt, en annað ekki. Staðalímyndir virðast enn vera mjög fastar í sessi ásamt gömlum gildum um konur, stöðu þeirra og hlutverk. Vissulega hélt ég og vonaði að hugsunarháttur fólks væri kominn lengra árið 2024, en m.v. þessa reynslu mína, þá er enn mjög langt í land.

En til að svara spurningunni sem er í titlinum á þessari grein (Skipta titlar máli?) þá er svarið já. Þeir skipta augljóslega máli og fólk leggur mikið upp úr þeim, mun meira en ég gerði mér nokkurn tíman grein fyrir.

--

--