Hvað gerir opið launakerfi fyrir mig?

Anna Signý
Kolibri bloggið
Published in
4 min readJun 9, 2022

--

Hjá Kolibri, þar sem ég starfa, er opið launakerfi. Opið launakerfi þýðir að allt starfsfólk getur séð laun annarra, séð launaþróun og allt fjárhaldsbókhald fyrirtækisins. En hvað er svona gott við opið launakerfi og hvað gerir það fyrir mig persónulega? Hvað gerir opið launakerfi fyrir mig sem konu í karllægum bransa?

Mynd eftir micheile dot com

Opið launakerfi er frábært tól til að ýta undir jafnrétti á vinnustað

Sem kona í hugbúnaðar- og tæknigeiranum, þar sem konur eru í minnihluta starfsfólks finnst mér þetta gríðarlega mikilvægt. Ég get séð hvað allt samstarfsfólk mitt er með í laun, launasöguna og séð hvenær þau fengu launahækkanir. Þetta er allt skýrt og aðgengilegt öllum í fyrirtækinu. Gagnsæi er í fyrirrúmi.

Þegar hin svokallaða „launaleynd“ er tekin út úr myndinni og ekki til staðar lengur innan veggja fyrirtækis myndast ákveðið öryggi með launatölur og launakröfur. Þar af leiðandi getum við öll talað um laun á kaffistofunni án þess að vera með samviskubit. Eða finnast við þurfa að lækka röddina þegar við tölum um laun. Laun eru ekkert feiminsmál í Kolibri. Við getum spurt spurningar um laun og rætt laun opinskátt. Við berum saman laun á jafningjagrundvelli því það eru engin leyndarmál hvað laun varðar. Það er ekkert hush hush hvað hvert og eitt okkar er með í laun. Að mínu mati leiðir opið launakerfi til heiðarlegra samskipta og trausts meðal starfsfólks.

Mín upplifun á opnu launakerfi fær mig til að hugsa hverjum það er í hag að hafa launaleynd? Hverjir græða á því að starfsfólk tali undir rós um launamál eða þori jafnvel ekki að ræða laun við samstarfsfélaga sína, vini og fjölskyldu?

Mynd eftir Amy Elting

Aftur á móti eykur opið launakerfi líka flækju launakerfis almennt. Því menningin á Íslandi gerir ekki ráð fyrir opnu launakerfi. Vottanir eins og jafnlaunavottun gera heldur ekki ráð fyrir opnu launakerfi. Hjá Kolibri byggjum við störf okkar á hlutverkum og ábyrgðum. Það eru ábyrgðirnar sem og reynsla þín, frumkvæði og drifkraftur sem hefur áhrif á launin þín, en ekki endilega hver starfstitillinn þinn er. Því er erfiðara að setja fólk í ákveðin box hvað laun varðar því það er misjafnt hvað hlutverk og ábyrgðir fólk innan Kolibri er með.

Hjá Kolibri eru u.m.þ.b. helmingur starfsfólks konur, en Kolibri tók markvissa ákvörðun að fjölga konum og auka jafnrétti innan félagsins.

F.v. Telma, Lína, Guðný og Margrét eru aðeins brot af konunum sem starfa hjá Kolibri

Ég færi rök fyrir því að opið launakerfi skapi ákveðið jafnrétti. Þetta er tól sem hefur hjálpað Kolibri mjög mikið til að laða að kvenskyns starfsfólk og við erum eitt af fáum fyrirtækjum í hugbúnaðariðnaðinum á Íslandi sem getum státað okkur af að 46% starfsfólks eru konur.

Að sækja um launahækkun hjá Kolibri er líka mjög sveigjanlegt ferli. Þú getur óskað eftir launahækkun sem fer fyrir nefnd af fólki sem þekkir þig og starfar með þér. Fólk sem eru jafningjar þínir en ekki yfirmenn sem eru að reyna að spara aurana. Til gamans má geta að það er líka hægt að óska eftir launahækkun fyrir kollega og/eða kollegi fyrir þína hönd. Einnig endurskoðum við launin reglulega og leggjum mikla áherslu á sanngirni og jafnrétti í launamálum.

Til að draga þetta aftur að því hvað opið launakerfi gerir fyrir mig persónulega, sem kona í karllægum bransa, þá hefur það hjálpað mér að skilja eigið virði. Það hefur hjálpað mér að vera öruggari í starfi og með meira sjálfstraust. Ég finn til trausts til samstarfsfólks míns. Ég veit að fólk fær ekki launahækkanir út á vinskap. Ég veit hvað karlmaður í svipaðri stöðu og ég, ábyrgðarlega séð, er með í laun. Ég þarf ekki að efast um að ég sé að fá nógu góð laun eða finnast að ég þurfi að sýna mig og sanna. Sanna virði mitt sem starfskrafts því ég er hrædd um að vera ekki nógu vel metin launalega séð. Ég veit hvað ég er með í laun og hvað öll hjá Kolibri eru með laun, og veistu hvað, þvílíkur léttir sem það er. Ég hugsa minna út í launin og er almennt rólegri því ég get séð með eigin augum hvað allt starfsfólk Kolibri er með í laun.

--

--