Horft um öxl

Hvað gerði Kolibri á árinu 2021?

Anna Signý
Kolibri bloggið

--

2021 var viðburðarríkt ár í sögu Kolibri, þrátt fyrir sérkennilegar aðstæður í áframhaldandi heimsfaraldri. Á árinu ákváðum við að endurskoða vinnuumhverfið okkar og réðumst í heilmikla andlitslyftingu á skrifstofunni í Borgartúni 26. Við tókum upp nýja siði eins og Power Friday á föstudögum þar sem við borðum gómsætan hádegismat saman, höldum samræmingarfundi og fáum góða gesti til okkar til að fræða okkur og gleðja. Kolibri hefur alltaf sett velsæld starfsfólks í fyrsta sæti en á árinu samdi félagið við Heilsuvernd um ýmsa heilsutengda ráðgjöf. Einnig hlaut Kolibri titillinn Fyrirmyndafyrirtæki 2021 skv. CreditInfo, þriðja árið í röð. Loks má líka segja frá því að við dustuðum rykið af faghópunum okkar með auknu faglegu samráði, menntun og framförum.

Verkefnin okkar eru þó það sem við erum hvað stoltust af, en til að stikla á stóru þá voru eftirfarandi verkefni unnin af Kolibri í samstarfi við frábæra viðskiptavini árið 2021.

Verkefnin og viðskiptavinirnir

Dómsmálaráðuneytið — Stafræn réttarvörslugátt

Kolibri hefur unnið með Dómsmálaráðuneytinu síðan í maí 2020 að verkefninu Réttarvörslugátt, sem felur í sér stafræna byltingu í samskiptum og verklagi stofnana íslenska réttarvörslukerfisins (dómstóla, lögreglu, ákæruvalds og lögmanna). Í upphafi árs var nýfarið í loftið tilraunaverkefni vegna gæsluvarðhaldskrafna hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Héraðsdómi Reykjavíkur. Verkefnið vann íslensku vefverðlaunin í mars sem vefkerfi ársins 2020. Í lok 2021 hafði Réttarvörslugátt verið innleidd hjá 8 stofnunum og notendur eru í kringum 80. Öll rannsóknarmál (gæsluvarðhald, farbann og rannsóknarheimildir t.d. húsleitir) eru afgreidd í gegnum kerfið og stefnt er að því að innleiða gáttina á landsbyggðinni og taka í notkun fyrir stærri málaflokka á árinu 2022.

TM Tryggingar — Nýr vefur og áframhaldandi stafræn þróun

Áralangt samstarf TM og Kolibri hefur skilað mörgum sigrum. Í kjölfar sameiningar TM og Kviku voru samningar endurnýjaðir um þverfaglegt teymi frá Kolibri sem starfar með sérfræðingum TM. Nýr vefur tm.is bar einna hæst á árinu. Byggir vefurinn á nýjum upplýsingaarkitektúr, nýrri tækni frá grunni, og frumsýnir uppfærða ásýnd fyrirtækisins sem var þróuð samhliða vefnum í samstarfi við Tvist auglýsingastofu. Lesa nánar um ferlið á bakvið verkefnið.

Hvað áframhaldandi þróun á TM appinu varðar, þá er nú hægt að fá sjálfsafgreiðslu á fleiri tegundum tjóna þar. Það sparar tíma og auðveldar viðskiptavinum TM lífið til muna. Einnig heyrir undirritaður pappír sögunni til við kaup á líf- og heilsutrygginum TM því nú er allt áhættumatsferlið orðið rafrænt.

Til gamans má geta þá fékk vefurinn tm.is tilnefningu til Íslensku vefverðlaunana í flokknum Fyrirtækjavefur stór. Sú tilnefning var ekki sú eina sem TM fékk, en TM appið var einnig tilnefnt sem og Vefsala TM.

Okkur til mikillar gleði vann tm.is til verðlauna í sínum flokki og við gætum ekki verið stoltari. Við óskum samstarfsfólki okkar hjá Tvist og TM hjartanlega til hamingju.

Vefur ársins í flokki stórra fyrirtækja leggur áherslu á einstaklega góða notendaupplifun og fallega hönnun með skemmtilegri grafík og fáguðum en skemmtilegum hreyfingum. Á sama tíma og vefurinn inniheldur mikið magn efnis og fjölbreyttra aðgerða er einfaldleikinn ávallt í fyrirrúmi. Einstaklega þægilegur áhorfs er varðar stærð og gerð leturs og litasamsetninga. Það er ljóst að mikil vinna hefur verið lögð í aðgengilegt útlit og virkni á mismunandi stigum hönnunar og smíði vefsins.

— Dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna 2021

Stafrænt Ísland, Sýslumenn — Stafrænn samningur um lögheimili barns

Teymi frá Kolibri vann með Stafrænu Íslandi og sýslumönnum um allt land að því að umbreyta þjónustu í fjölskyldumálum frá janúar og fram í lok maí. Verkefnið ruddi brautir með því að gera foreldrum með sameiginlega forsjá kleift að færa lögheimili barna sinna sín á milli með stafrænum samningi á Island.is. Verkefnið hefur stórbætt þjónustuupplifun foreldra og stytt afgreiðslutíma umræddra umsókna (sem eru um 200 á ári) um helming.

Við segjum stolt frá því að verkefnið var tilnefnt til Íslensku vefverðlaunanna í flokknum Stafræn lausn. Hér má lesa nánar um verkefnið.

Sambandið — Umsókn um fjárhagsaðstoð

Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin í landinu hafa tekið höndum saman og stefna að því að stórefla þá mikilvægu þjónustu sem þau bjóða með stafrænni umbreytingu og aukinni samvinnu sveitarfélaganna í stafrænum málum. Stafrænt ráð sveitarfélaganna valdi umsókn um fjárhagsaðstoð og vinnslu þeirra umsókna sem fyrsta verkefnið sem tekið yrði fyrir í þessari umbreytingu. Og þar sem Kolibri vann með Reykjavík að sambærilegri lausn við góðan orðstír óskaði Sambandið eftir kröftum Kolibri í þetta verk sem hófst í apríl 2021. Unnið er að umsóknarflæði (Ósk) sem og umsýslukerfi (Veitu). Til stóð að varan færi í loftið á árinu 2021 en það gekk því miður ekki svo úr varð að varan fór í loftið í febrúar 2022.

Valitor — Bætt notendaupplifun greiðslusíðu

Greiðslusíða Valitor er þjónusta sem fjölmargar vefverslanir á Íslandi og víðar nota og almenningur þekkir vel af eigin reynslu. Endurhönnun á síðunni var orðin tímabær í ljósi hraðrar þróunar í heimi greiðslumiðlunar hjá netverslunum. Valitor fékk Kolibri til samstarfs þar sem markmið var fyrsta flokks notendaupplifun og viðmótshönnun. Verkefnið hófst 2021 og lauk snemma 2022. Þá bættist einnig við verkefni um forritun og innleiðingu nýs viðmóts.

Andes — Hönnun og mörkun

Andes leitaði til Kolibri sem ungt og hratt vaxandi fyrirtæki með gott lógó í höndunum en komið á það þroskastig að þörf var á vandaðri ásýnd sem endurspeglar þjónustuna, gildin, og markmið — og svo uppfærðan vef í kjölfarið.

Það var keyrt í nettan og snöggan feril í kringum mörkunarvinnu og svo tók við rough design up front (RDUF) nálgun á vefhönnun og þróun. Þrír hönnuðir komu að verkefninu á mismunandi stigum sem undirstrikar sveigjanleikann í nálguninni. Í framhaldi aðstoði Kolibri við ýmsa grafíska hönnun, t.d. merkingar á skrifstofu Andes. Lesa nánar um ferlið á bakvið verkefnið.

Visttorg — Fersk notendaupplifun gagnagrunns

Kolibri fór í samstarf með frumkvöðlunum á bakvið Visttorg. Þau höfðu skýra sýn: leitanlegur gagnagrunnur fyrir vistvænar byggingavörur á íslenskum markaði, en vantaði aðstoð við að gera viðmót og upplifun ferska og vandaða. Kolibri tók að sér hönnun á viðmótinu og kláraði verkefnið snemma 2022 og mun forritun fara fram hjá Visttorgi.

Horft fram á við

Nú þegar aðeins er liðið á árið 2022 finnst okkur hollt og gott að fara yfir liðið ár en líka gott að horfa til framtíðar á öll þau spennandi verkefni og tækifæri sem framundan eru.

Þjónustuhönnun og rannsóknir (e. UX Research) munu fá sérstaka athygli hjá Kolibri á nýju ári og við erum með nokkur verkefni á dagskrá þar sem verður gaman að segja frá og samstarf okkar við Stafrænt Ísland, Dómsmálaráðuneytið og TM er í fullum gangi. Við kynnum til leiks Kolibri studio, nýtt hönnunardrifið teymi sem mun leggja áherslu á mörkun, hönnun og þróun á minni stafrænum lausnum. Nýjustu verkefnin þar eru glænýr vefur Listasafns Íslands, app sem styður hringrásarhagkerfið á Íslandi og fleira spennandi.

--

--