Fjórar tilnefningar — Tveir sigrar

Íslensku vefverðlaunin 2020

Anna Signý
Kolibri bloggið

--

Íslensku vefverðlaunin 2020 voru haldin hátíðleg rafrænt í kvöld 26. mars 2021, en sl. föstudag voru topp 5 verkefnin í hverjum flokki opinberuð. Við hjá Kolibri hlutum fjórar tilnefningar í fjórum flokkum og fengum tvö verðlaun fyrir verkefni sem við erum einstaklega stolt af. Alltaf gaman að fá tilnefningar, en hvað þá að hreppa verðlaun.

Stafræn réttarvörslugátt var tilnefnd í flokknum Vefkerfi ársins

Þróunarteymi frá Kolibri hefur unnið að Stafrænni réttarvörslugátt í samstarfi við Dómsmálaráðuneytið síðan á vormánuðum 2020. Réttarvörslugátt er stafrænn farvegur fyrir örugga og hraða miðlun á gögnum og upplýsingum milli aðila í íslenska réttarvörslukerfinu. Gáttin stuðlar að hraðri og vandaðri málsmeðferð og býr til yfirsýn og rekjanleika þvert á kerfið.

Vefsala TM — Vádís var tilnefnd í flokknum Söluvefur ársins

Kolibri og TM hafa átt langt og farsælt samstarf en Kolibri hefur unnið að Vádísi sem er rafræn sala trygginga TM á netinu.

Vádís leiðir viðskiptavini í gegnum allt ferlið, veitir þeim ráðgjöf og hjálpar þeim að finna þær tryggingarnar sem þeir þurfa á auðveldan og gagnsæjan máta.

Allt ferlið, frá upphafi til enda er 100% stafrænt og sjálfvirkt.

TM appið var tilnefnt í flokknum App ársins

TM appið er traustur ráðgjafi og leiðbeinandi viðskiptavina TM, en þar geta viðskiptavinir afgreitt sig sjálfir þegar þeim hentar. Í appinu er m.a. hægt að tilkynna tjón og fá tjónið afgreitt innan 60 sekúndna.

Þetta er umbylting á þeirri upplifun sem viðskiptavinir tryggingafélaga hafa fengið fram að þessu. Upplifun viðskiptavina hefur því verið færð á mun hærra stig á sama tíma og kostnaður og tími hjá TM við afgreiðslu tjóna hefur lækkað.

TM.is var tilnefndur í flokknum Fyrirtækjavefur (stór)

Nýr vefur TM er ekki aðeins endurhannaður heldur útkoma úr stóru verkefni þar sem vefurinn var endurhugsaður frá A-Ö.

Allt efni og framsetning hefur verið tekin í gegn og byggir vefurinn á nýjum upplýsingaarkitektúr, nýrri tækni frá grunni, og frumsýnir uppfærða ásýnd fyrirtækisins sem var þróuð samhliða vefnum í samstarfi við Tvist.

Tvö verðlaun í hús!

Nú í kvöld voru sigurvegarar Íslensku vefverðlaunanna 2020 opinberaðir í skemmtilegu streymi þar sem Eva Ruza og Hjálmar Örn fóru á kostum.

Kolibri hlaut verðlaun fyrir tvö verkefni af þeim fjórum sem voru tilnefnd okkur til mikillar gleði.

Stafræn réttarvörslugátt er Vefkerfi ársins 2020

Umsögn dómnefndar:

Vefkerfi ársins er einfalt í notkun og notendavænt, en með tilkomu þess verður ferlið hraðara og öruggara í vinnslu. Kerfið styður vel við notendur, skýrleiki er í fyrirrúmi og gerir flókna umsýslu rekjanlega og sýnilega. Mjög vel útfærð lausn!

Vefsala TM — Vádís er Söluvefur ársins 2020

Umsögn dómnefndar:

Söluvefur ársins er með ótrúlega einfalt og þægilegt ferli sem býður alla möguleika á skýran hátt. Vefurinn er það stílhreinn og einfaldur að kaup kalla á mann. Frábærlega vel útfærð lausn á annars flóknu ferli.

Við óskum samstarfsaðilum okkar; TM, Dómsmálaráðuneytinu og Stafrænu Íslandi ásamt öllum sem hlutu tilnefningu og/eða verðlaun í kvöld hjartanlega til hamingju. Við þökkum SVEF einnig kærlega fyrir okkur.

--

--