Af hverju hönnunarsprettir?

Anna Signý
Kolibri bloggið
Published in
6 min readJun 7, 2019

--

Hönnunarsprettir er aðferð sem við hjá Kolibri notum gjarnan í nýsköpun og þróun stafrænna lausna. Í stað þess að hlaupa af stað og byrja strax að vinna í lausnum, leggjum við áherslu á að minnka óvissu strax í byrjun verkefna og sannreyna hugmyndir með viðskiptavinum í gegnum allt ferlið, með hraða og hagkvæmni í fyrirrúmi.

Til þess að ná þessu fram, notum við hönnunarspretti til að ramma inn vandamál, snúa þeim yfir í tækifæri og setja fókusinn á þarfir og upplifun notenda. Hönnunarsprettir er mjög skapandi og gefandi aðferðafræði, sem gerir fólki kleift að vinna saman á skilvirkan hátt, hratt og örugglega.

Hvað eru hönnunarsprettir?

Hönnunarsprettir voru þróaðir af Google Ventures og eru ítarlegar útskýrðir í bókinni Sprint eftir Jake Knapp sem var gefin út árið 2016.

Hönnunarsprettir er aðferð þar sem hönnunarhugsun (e. Design Thinking) er beitt til að draga saman það sem er æskilegt frá mannlegu sjónarmiði með því sem er tæknilega raunhæft og hagkvæmt.

Kjarninn í hönnunarhugsun er því mjög mannlegur, því með hönnunarhugsun er einblínt á fólkið sem er verið að búa til vörur, lausnir eða þjónustu fyrir. Hönnunarsprettir þjappa hönnunarhugsun saman í fimm daga ferli, sem í hefðbundinni þróun getur tekið marga mánuði.

Í hönnunarspretti eru allar umræður skipulagðar, mælanleg langtímamarkmið eru sett og áskorun sprettsins er kortlögð út frá viðskiptavinum með samkennd og auðmýkt í fyrirrúmi. Allir þátttakendur skissa og taka þátt í að skapa lausnir í sameiningu í sama rýminu í gegnum sprettin og loks er notagildi lausnarinnar staðfest með viðskiptavinum.

Design Sprint aðferðafræðin er ítarlega kynnt í bók eftir Jake Knapp, sem kallast Sprint; How to Solve Big Problems and Test New Ideas in Just Five Days. Höfundur myndar er Gautam Lakum.

Við hjá Kolibri höfum þróað okkar eigin hönnunarspretti og aðferðafræði byggða á hönnunarhugsun. Fyrsta skrefið hjá okkur er að rannsaka fyrirtæki og þeirra viðskiptavini, með greinargóðum notendarannsóknum og viðtölum. Að rannsóknarvinnunni lokinni tekur þriggja daga hönnunarsprettur við. Ástæðan fyrir því að við skipuleggjum okkar spretti yfir þrjá daga í stað fyrir fimm, er sú að við erum búin að vinna forvinnu áður en við förum í hönnunarsprett. Þar af leiðandi eru hönnunarsprettirnir okkar mjög strategískir og hnitmiðaðir. Einnig skipuleggjum við notendaprófanirnar eftir sprettinn, en ekki í sprettnum eins og er gert í bókinni. Loks er ferlið, hugmyndirnar og lausninar sem voru uppgötvaðar og þróaðar í sprettinum kynntar fyrir hagsmunaaðilum.

Hver er galdurinn við hönnunarspretti?

Það er hreint ótrúlegt hvað þessi aðferðafræði hjálpar fólki að hugsa út fyrir kassann, skapa og gefa frá sér einstakar hugmyndir. Oft eiga verkefni til að vaxa okkur í augum, vandamálin eru of stór eða tímafrek til að tækla. Því miður getur þetta verið raunin hjá fyrirtækjum sem eru föst í daglegum rekstri og hafa engan tíma til nýsköpunar. En þau vita þó oft að þau þurfa að gera eitthvað, en hafa ekki hugmynd um hvar á að byrja.

Svo er líka hægt að fara öfugt í þetta og hlaupa af stað með hugmynd án þess að tala við viðskiptavini eða leita endurgjafar. Sumar svoleiðis hugmyndir ná langt, en aðrar enda með að vera mjög kostnaðarsamar, tímafrekar og erfiðar og enda í ruslinu svo að segja. Stór fyrirtæki út í heimi hafa meira að segja hlaupið af stað án þess að staðfesta hugmyndir sínar með viðskiptavinum og tapað stórfé á því. Sem dæmi um þetta má nefna Amazon Fire Phone, en Amazon tapaði 170 milljón bandaríkjadölum á þróun símans.

3D sjónvörp er annað dæmi um vöru sem sló ekki í gegn hjá kaupendum, en í dag hafa allir stóru sjónvarpsframleiðendurnir formlega gefist upp á að framleiða 3D sjónvörp. Þar voru LG og Sony þau síðustu, en þau hættu framleiðslu á 3D sjónvörpum árið 2017.

Jeff Bezos, stofnandi og framkvæmdarstjóri Amazon, kynnir Fire Phone. Mynd fengin frá WIRED.

Sparar tíma og eykur framleiðni

Oft er tími mikil hindrun hvað nýsköpun og stafræna þróun varðar. Í þessu hraða samfélagi sem við búum í, þarf allt að gerast sem fyrst. Þarna koma hönnunarsprettir sterkir inn. Þó svo að þetta sé þriggja til fimm daga ferli, þá er það mun styttri tími en fer vanalega í að nýskapa eða koma nýrri vöru í hendurnar á viðskiptavinum.

Hönnunarsprettir eru byggðir upp á hagkvæmni og hraða en það sem gerir þá einstaka, er að þeir eru frábært tækifæri til að draga mismunandi aðila, mismunandi þekkingu og færni saman að borðinu.

Í hönnunarspretti vinna allir saman að sameiginlegu markmiði. Fólk úr mismunandi deildum, með mismunandi reynslu sameinast í einu rými og tækla áskorun sprettsins saman. Ef allir eru sammála um hvert skuli stefna og leggja allt annað til hliðar á meðan á hönnunarsprettinum stendur, eru kraftar allra sameinaðir til að ná settu markmiði og framleiðni eykst. Lykilatriði í hönnunarspretti er að vera til staðar án truflana frá tölvupóstum, spjalli og farsímum. Fókusinn er settur á markmiðin og áskorun sprettsins.

Aðferðafræðin er bæði hvetjandi og margreynd

Í ár eru þrjú ár síðan Sprint bókin kom út, en aðferðafræðin var búin að vera í þróun í dágóðan tíma hjá Google Ventures áður en bókin var gefin út. Síðan þá hafa margskonar fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum út um allan heim farið af stað með hönnunarspretti. Þar af leiðandi er mikið efni um hönnunarspretti aðgengilegt á netinu, meira að segja tilbúið sniðmát af dagskrá fyrir hönnunarspretti.

Reynslusögurnar eru jafn mismunandi og þær eru margar, en fólk er almennt sammála um að ferlið styður vel við þátttakendur, allt er gagnsætt og upp á borðum og allir vita hvað er ætlast til að þeim á hverri stundu. Fyrsti dagurinn getur verið erfiður, enda er þetta mjög stíf dagskrá. Eftir því sem líður á ferlið því meiri ástríða og ákefð magnast upp í fólki og fólk fær virkilega að blómstra. Það getur verið krefjandi að lóðsa hönnunarspretti, enda er mjög mikilvægt að halda dagskrá, tíma og hópnum við efnið og sett markmið. En andrúmsloftið í herberginu á meðan á hönnunarspretti stendur er ótrúlega hvetjandi og í rauninni næstum því ávanabindandi. Orkan og krafturinn sem myndast er eldsneyti til frambúðar, því eftir að hafa prófað hönnunarspretti er ekki aftur snúið. Þetta er aðferðafræði sem svínvirkar.

Hönnunarsprettir eru gefandi, skemmtilegir en krefjandi teymisvinna. Höfundur myndar er Marvin Meyer.

Hönnunarsprettir eru fjölhæfir og meðfærilegir

Í bókinni eru hönnunarsprettir mjög vel skilgreindir, fimm dagar þar sem ákveðnar aðferðir og æfingar eru framkvæmdar í réttri röð. En hönnunarsprettir eru í raun meðfærilegir og það er hægt að sérhanna sína eigin spretti eftir þörfum hverju sinni. Einnig eru þeir mjög fjölhæfir og hægt að nota hvenær sem er, við hvaða aðstæður sem er. Það er hægt að nýta til að m.a. til að ná á nýja markaði, skilgreina markaðstækifæri og strategíu, hanna glænýjar vöru eða fítusa í vöru sem er til á markaði nú þegar. Möguleikarnir eru í raun endalausir, það er hægt að tækla hvaða vandamál sem er, snúa því yfir í tækifæri, nýta skapandi hugsun og æfingar til að búa til eitthvað einstakt sem hittir í mark hjá viðskiptavinum. Hönnunarsprettir er tólið sem allir ættu að nýta sér til að ná lengra, hugsa út fyrir kassann og prófa nýja hluti.

Hönnunarsprettir er ótrúlega skemmtileg aðferðafræði, enda hafa kraftaverk gerst á meðan á hönnunarspretti stendur. Að setja sig í spor notanda, hugsa út frá þeirra þörfum, óskum og væntingum og það með hugmyndafræði að vopni sem styður við hraða, hagkvæmni og nýsköpun, er algjör ofurkraftur. Með hönnunarsprettum er hægt að fljúga inn í framtíðina til að sjá vísi að fullunninni vöru og viðbrögð viðskiptavina, áður en farið er í dýrar skuldbindingar. Því segi ég, af hverju ekki hönnunarsprettir?

--

--