Það þarf ekki alltaf að byrja upp á nýtt

Baldur Kristjánsson
Kolibri bloggið
Published in
4 min readAug 29, 2023

--

Þegar við fáum húsnæði afhent er yfirleitt tvennt sem kemur til greina — rífa allt út og byrja upp á nýtt eða gera vel valdar endurbætur og halda þeim svo áfram eftir efnum, aðstæðum og áhuga.

Það er sjaldnast hægt að flytja inn í húsnæði án þess að gera nokkuð. Mynd: Roselyn Tirado.

Vefsíður fylgja gjarnan svipuðu mynstri. Þegar vefur hefur verið vanræktur í einhvern tíma, nýr markaðsstjóri tekur við eða jafnvel nýr eigandi, er oft öllu hent út og byrjað upp á nýtt. Þetta er í raun sambærilegt við að hugsa bara um heilsuna þegar við förum í sérstakt heilsuátak, en vera löt og vanrækja okkur sjálf þess á milli.

Það er til betri leið

Mun betra er að hafa vefinn í stöðugri framþróun, alltaf. Í stað þess að fjárfesta á nokkurra ára fresti í nýjum vef, gerum við einfaldlega ráð fyrir fjárfestingum á hverju ári í að þróa áfram vefinn. Þetta er stundum kallað vefbestun. Hægt er að skipuleggja stöðuga bestun vefsins í nokkrum litlum áhlaupum á ári í kringum afmarkaða þætti, eða með stöðugri þróun frá mánuði til mánaðar.

Hér er ég ekki bara að tala um að viðhalda texta og myndefni, að bæta við síðum og uppfæra veftréð, heldur allar aðgerðir sem gera vef góðan. Eða jafnvel bestan. Listinn hér fyrir neðan er góður útgangspunktur:

Ásýnd (e. look and feel)

  • Er vefurinn „on brand“ og vel hannaður með tilliti til grafískrar framsetningar, lita, leturgerða og uppsetningar?
  • Skalast vefurinn vel fyrir öll tæki, þ.e. hefðbundnar tölvur, spjaldtölvur og snjallsíma?
  • Var verið að endurmarka (e. rebrand) eða er kominn tími á það?

Efni (e. content)

  • Er textaefni læsilegt á skjá, hnitmiðað og skrifað með markhópinn (frekar en innanhússfólk) í huga?
  • Eru ljósmyndir teknar af fagmanneskju og frá fyrirtækinu eða stofnuninni sjálfri?
  • Eru texti, ljósmyndir og myndbönd og annað efni almennt áhugavert og í takt við tilgang vefsins?
  • Er samræmi í framsetningu efnis og unnið samkvæmt vörumerkja- og efnisstefnu, óháð því hver vann það?

Hraði

  • Er síðan fljót að hlaðast hjá notendum?
  • Ef ekki, vissirðu að hægagangur og bið er ein algengasta ástæða þess að fólk gefst upp á vefsíðum?

Skipulag upplýsinga (e. information architecture)

  • Er veftréð og leiðakerfið heppilegt miðað við tilgang vefsins?
  • Er auðvelt að finna efni?
  • Er góð leitarvél?
  • Er nóg af síðum, eru þær rétt staðsettar og búið að taka til í úreltu efni?

Aðgengismál (e. accessibility)

  • Er vefurinn aðgengilegur fyrir allt fólk?
  • Hvernig upplifir fólk með lestrarörðugleika, tungumálaörðugleika, litblindu eða sjónskerðingu vefinn?

Leitarvélabestun (SEO)

  • Kemur síðan ofarlega í leitarvélum hjá fólki sem er að leita að því sem þú hefur upp á að bjóða?
  • Er búið að gera allar ráðstafanir til að koma vefnum ofar? Leitarvélabestun er ekki einhver brella heldur geta slíkar ráðstafanir á sama tíma aukið verulega gæði vefsins.

Vefumsjónarkerfi (CMS)

  • Getur starfsfólk fyrirtækisins sett inn nýtt efni og síður, og viðhaldið því?
  • Er efnið sjálft aðskilið frá hönnun og virkni?
  • Er vefumsjónarkerfið sjálft samkeppnishæft, og fær það reglulega uppfærslur?

Virkni og tengingar

  • Er verið að nýta möguleika til sjálfsafgreiðslu, t.d. vefsölu og bókana?
  • Er verið að birta lifandi upplýsingar úr kerfum þar sem það á við?
  • Var verið að innleiða nýtt kerfi sem þarf að tengja í staðinn fyrir eldra kerfi?

Tölfræði (e. analytics)

  • Veistu hversu margar heimsóknir vefurinn er að fá og hvaða síður eru mest og minnst skoðaðar?
  • Veistu hversu margir notendur gefast upp eða hætta við kaup og hvers vegna?

Hýsing og rekstur

  • Er vefhýsingin hagkvæm, örugg og án hnökra?
  • Er auðvelt að gera breytingar og setja upp nýjar útgáfur?

Sum fyrirtæki eru komin á þann stað að margt má betur fara varðandi nánast öll atriðin á þessum lista. Þá þarf mögulega að rífa allt út og byrja upp á nýtt. Í mörgum tilfellum er hins vegar um einstaka atriði að ræða, t.d. endurmörkun, leitarvélabestun eða tæknilega uppfærslu. Þá er hægt að byrja með það sem er til í dag og taka í gegn það sem þarf.

Fyrsti snertipunkturinn við markhópinn skiptir öllu máli

Vefurinn þinn er þínar stafrænu höfuðstöðvar og andlit út á við. Vægi húsakynna og auglýsinga í hefðbundnum miðlum verður sífellt minna. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er ímynd okkar beinlínis í vasanum hjá fólki, í snjallsímanum. Framþróun á vefnum er því ein besta fjárfesting sem mörg fyrirtæki geta farið í.

Við náum ekki til stórs hóps fólks nema í gegnum snjallsíma og þá miðla sem fólk notar þar. Mynd: Camilo Jimenez.

Vefur sem er í stöðugri og faglegri endurskoðun helst ofarlega í leitarniðurstöðum. Fjárfesting í betri vef, vefverslun og/eða stafrænni þjónustu ætti því ekki að vera skorin við nögl samanborið við endurbætur á skrifstofu- eða verslunarhúsnæði, heldur í forgangi.

Með því að betrumbæta vefinn jafnt og þétt, í stað þess að endurnýja hann í heild sinni á nokkurra ára fresti, getum við verið örugg um að hann þjóni alltaf tilgangi sínum vel. Þannig er líka hægt að styðja við það mikilvægasta sem fyrirtækið er að gera á hverjum tíma. Og er eitthvað sem skiptir meira máli en það þegar upp er staðið?

--

--

Business Development and Delivery Lead @ Kolibri. Passionate about creative, effective and happy individiuals, teams and companies.